1. Aðgangsreglur og hættumat fyrir Holuhraun m.m.

AVD-logo-skjaldarmerki-155x81.jpg

RÍKISLÖGREGLUSTJÓRINN – Almannavarnadeild – Tölvupóstfang: info@sst.is

Lokað svæði vegna jarðhræringa í Bárðarbungu og eldgoss í Holuhrauni

Tenglar-hlekkurValmyndir:
1. Aðalvalmynd – Aðgangsreglur og hættumat fyrir Holuhraun m.m.(þessi síða) 
1b. Aðrar kröfur
2. Hættumatsupplýsingar
3. Hættumatskort
4. Umsóknir um aðgang

Vinsamlegast athugið að aðgangur að svæðinu er nú mjög takmarkaður. Einungis 14 aðilar geta verið á lokaða svæðinu á hverjum tíma auk lögreglu og starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs . Vísindamenn Háskóla Íslands og Veðurstofunnar njóta forgangs um dvöl á svæðinu vegna starfa sinna fyrir almannavarnir.
***Ein af nauðsynlegum forsendum í veitingu aðgangsleyfis er að umsækjandi lesi hættumatsupplýsingar og skoði hættukort hér neðar***

 

1. Aðgangsreglur

Eingöngu sérstök tímabundin leyfisbréf sem gefin eru út vegna jarðhræringa í Bárðarbungu og eldgoss í Holuhrauni veita aðgang að lokuðu svæði sem er skilgreint á meðfylgjandi korti. Áður útgefin skírteini ríkislögreglustjóra um aðgang inn fyrir ytri lokanir í almannavarnaástandi gilda ekki á þessu svæði.

1. Þeir sem geta fengið útgefin leyfi eru: Starfsmenn á vegum almannavarna, vísindamenn og fulltrúar fjölmiðla þ.m.t. bílstjórar og leiðsögumenn á þeirra vegum. Lögreglumenn og starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs þurfa ekki sérstakt leyfi til ferða um svæðið starfa sinna vegna.

2. Skilgreiningar.
•••••a. Fjölmiðill er hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Til fjölmiðla teljast m.a. dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar. (skv. lögum um fjölmiðla nr. 38/2011).

3. Fjölmiðlum sem fá aðgang að svæðinu er skylt að miðla efni til annarra fjölmiðla eftir þörfum skv. verklagi um samnýtingu („pooling“) myndefnis.

4. Vísindamenn sem fá leyfi skulu sinna rannsóknum sem gagnast almannavörnum við mat á aðstæðum og þróun. Vísindamenn skulu miðla niðurstöðum sínum í gegnum vísindamannaráð almannavarna eins fljótt og auðið er.
•••••a. Ráðgjafahópur vísindamanna metur umsóknir með tilliti til þessa.
•••••b. Samhliða umsókn um aðgang að lokuðum svæðum skal sótt um rannsóknarleyfi til Vatnajökulsþjóðgarðs sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 608/2008 um Vatnajökulsþjóðgarð.

5. Umsóknir um leyfi eru afgreiddar á milli 09:00 og 15:00 mánudaga til fimmtudaga. Afgreiðslutími eru a.m.k. tveir virkir dagar.

6. Sækja skal um rafrænt á netfangið info@sst.is
•••••a. Með umsókn vegna fjölmiðla skulu fylgja nöfn og kennitölur, eða vegabréfsnúmer erlendra aðila, þeirra sem sækja um aðgang að svæðinu auk:
————i. Staðfestingar frá fjölmiðli skv. a. lið 1. gr. um að viðkomandi séu allir starfsmenn á hans vegum.
····················a) Vegna stjórnenda farartækja og leiðsögumanna skal þeirra vinnuveitandi senda inn samskonar yfirlýsingu.
————ii. Yfirlýsingar frá fjölmiðli skv. a) lið 1. gr. um að viðkomandi starfsmenn séu með gildar tryggingar gagnvart líkams- eða heilsutjóni, sem þeir geta orðið fyrir innan lokaða svæðisins auk yfirlýsingar um að viðkomandi fjölmiðill greiði fyrir kostnað við björgun starfsmanna ef til þess þarf að koma.
····················a) Vegna stjórnenda farartækja og leiðsögumanna skal þeirra vinnuveitandi senda inn samskonar yfirlýsingu.
————iii. Undirritaðar yfirlýsingar starfsmanna fjölmiðla sem fara eiga inn fyrir lokanir um að þeir geri sér grein fyrir þeim hættum sem þar eru skv. hættumatskorti auk erfiðra aðstæðna til ferða um svæðið og takmarkaðra möguleika til björgunar. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að viðkomandi afsalar sér öllum rétti á kröfum á ríkissjóð vegna tjóns á búnaði eða eigum eða líkams- og heilsutjóni sem að ferð viðkomandi um lokaða svæðið gæti haft í för með sér. Yfirlýsingin skal vottuð af yfirmanni viðkomandi starfsmanns.
····················a) Stjórnendur farartækja og leiðsögumenn skulu senda inn samskonar yfirlýsingu.
•••••b. Með umsókn vegna vísindarannsókna skulu fylgja nöfn og kennitölur, eða vegabréfsnúmer erlendra aðila, þeirra sem sækja um aðgang að svæðinu auk:
————i. Staðfestingar frá vísindastofnun um að viðkomandi stundi rannsóknir á þeirra vegum og tilgangur rannsókna.
····················a) Vegna stjórnenda farartækja og leiðsögumanna skal þeirra vinnuveitandi senda inn samskonar yfirlýsingu.
————ii. Yfirlýsingar frá vísindastofnun að viðkomandi starfsmaður sé með gildar tryggingar gagnvart líkams- eða heilsutjóni sem þeir geta orðið fyrir innan lokaða svæðisins.
····················a) Vegna stjórnenda farartækja og leiðsögumanna skal þeirra vinnuveitandi senda inn samskonar yfirlýsingu.
————iii. Undirritaðar yfirlýsingar viðkomandi vísindamanna að þeir staðfesti að þeir hafi verið upplýstir um hættumat og hafi þekkingu og þjálfun til að meta hættur þær sem verið geta innan lokaða svæðisins.
····················a) Stjórnendur farartækja og leiðsögumenn skulu senda inn samskonar yfirlýsingu.
•••••c. Með umsókn vegna starfsmanna á vegum almannavarna skulu fylgja nöfn og kennitölur þeirra sem sækja um aðgang að svæðinu auk:
————i. Undirritaðar yfirlýsingar viðkomandi starfsmanna að þeir staðfesti að hafa verið upplýstir um hættumat og hafi þekkingu og þjálfun til að meta hættur þær sem verið geta innan lokaða svæðisins.
····················a) Stjórnendur farartækja og leiðsögumenn skulu senda inn samskonar yfirlýsingu.

7. Þegar leyfisumsókn hefur verið afgreidd þá er umsækjanda tilkynnt það í tölvupósti, hvort umsókn hafi verið samþykkt eða hafnað. Tilkynning í tölvupósti
um samþykkt umsóknar jafngildir ekki útgefnu leyfi, sbr lið 8.

8. Útgefið leyfi skal nálgast í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð 14 virka daga á milli 09:00 og 15:00. Skv. samkomulagi þá er hægt að fá leyfin afhent á lögreglustöðinni á Húsavík á milli 09:00 og 15:00 virka daga.

9. Gildistími leyfa kemur fram á leyfisbréfinu og er að öllu jöfnu 24 tímar fyrir fjölmiðla. Gildistími leyfisbréfa vísindamanna er ákveðinn skv. rannsóknaráætlun viðkomandi vísindastofnunar.

10. Ef leyfishafi getur ekki nýtt sér leyfið á gildistíma þess þarf að sækja um að nýju.

11. Leyfisbréfi skal framvísa ásamt persónuskilríkjum við lokunarpóst (í Krepputungu). Við brottför af svæðinu skal einnig (fara í gegnum Krepputungu) og tilkynna brottför (þar).

12. Einungis 14 aðilar geta verið á lokaða svæðinu á hverjum tíma auk lögreglu og starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs . Vísindamenn Háskóla Íslands og Veðurstofunnar njóta forgangs um dvöl á svæðinu vegna starfa sinna fyrir almannavarnir.
a. Þetta er byggt á hættumati og björgunaráætlun fyrir svæðið. Þar er gert ráð fyrir því að sú staða komi upp að allir sem á svæðinu eru, verði að dvelja í skálum í Drekagili svo sólarhringum skipti og eru neyðarvistir þar við það miðaðar. Auk þess er fyrirliggjandi áætlun um rýmingu og björgunarleiðir með þeim hætti að það takmarkar fjölda sem hægt er að flytja af svæðinu.

13. Ökutæki þeirra sem fá leyfi til að fara inn á lokuð svæði skulu henta til akstur í aðstæðum sem þar kunna að vera. Kröfur eru gerðar um að bifreiðar séu breyttar til torfæruaksturs að vetrarlagi með lágmarks dekkjastærð 38“, búnar GPS leiðsögutæki og fjarskiptabúnaði.

14. Allir sem fá leyfi til að fara um lokaða svæðið skulu hafa meðferðis gasgrímu sem verndar gegn SO2 og gasmæli fyrir SO2
sem gefur viðvörun þegar gildi fara yfir vinnuverndarmörk.

15. Allir hópar sem fá leyfi til að fara inn á lokuð svæði skulu hafa ökumann og/eða fararstjóra sem sé staðkunnugur og með reynslu af akstri í snjó, vetrarferðamennsku og tali íslensku.

16. Vettvangsstjóri frá lögreglu fer með stjórn innan lokaða svæðisins.
Við komu inn á lokaða svæði skal tilkynna sig til vettvangsstjóra. Hlíta skal fyrirmælum hans í öllu.
•••••a. Tilkynna skal til vettvangsstjóra þegar farið er að eldstöðvunum og þegar farið er þaðan aftur.
•••••b. Tilkynna skal þegar farið er út af lokaða svæðinu.

17. Áfengisneysla er óheimil innan lokaða svæðisins.

18. Reglur þessar taka þegar gildi og um leið falla úr gildi öll leyfi sem gefin hafa verið út með eldri dagsetningum.

Reykjavík 17 október 2014
Ríkislögreglustjóri,    Lögreglustjórinn á Húsavík,   Lögreglustjórinn á Seyðisfirði,   Lögreglustjórinn á Hvolsvelli.

Tenglar-hlekkurValmyndir:
1. Aðalvalmynd – Aðgangsreglur og hættumat fyrir Holuhraun m.m.(þessi síða) 
1b. Aðrar kröfur
2. Hættumatsupplýsingar
3. Hættumatskort
4. Umsóknir um aðgang