Fræðsluefni

Eldgos

Eldgos geta hafist fyrirvaralaust, en gera þó oftast boð á undan sér, t.d. með jarðskjálftum sem greinast á mælum Veðurstofunnar og fleiri stofnana. Hætta getur stafað af eldgosum vegna hraunrennslis og öskufalls. Öskufall úr einu gosi getur borist um allt land með vindum.  Gjóskan getur verið varasöm vegna eldinga, eiturgufa og annarra eiturefna.

Eldgos_hraun

Eldvirkni á Íslandi er á belti sem nær frá Reykjanesskaga í suðvestri norður í Langjökul og frá Vestmannaeyjum um vestanverðan Vatnajökul og norður fyrir land. Að auki er nokkur eldvirkni á Snæfellsnesi.

Kortið hér fyrir neðan sýnir hraun sem runnin eru frá lokum ísaldar fyrir um 11 þúsund árum. Dökki liturinn sýnir hraun sem runnin eru á síðustu 3000 árum, hin eru eldri.

 Island_hraun

Gjóskufall/Öskufall
Frá eldgosum kemur gjóska sem inniheldur m.a. eiturgufur, eiturefni og síðast en ekki síst verður að athuga að öskufallið getur verið svo mikið að það er algjört myrkur í námunda við eldstöðina, jafnvel um hábjartan dag.

Frá sumum eldstöðvum geta hraunmolar ferðast langar vegalengdir og því hættulegar þeim sem fyrir þeim verða. Öskuský truflar flugsamgöngur, en þegar eldgos hefst þá er gerð gjóskuspá, sem segir m.a. til um hvert gjóskan berst.  Flugumferð er beint frá gjóskuskýinu. Á myndinni sjást hættusvæði í námunda við helstu gjóskuframleiðandi eldstöðvar þegar þær eru virkar.

Island_aska

Eldingar
Þegar eldgos verður undir jökli, sjó eða vatni verða meiri eldingar en ella. Eldingar í slíkum gosum verða vegna rafhleðslu í gosmekkinum. Hleðslan verður til í gígnum við samspil vatns og kviku. Gosmökkurinn verður rafhlaðinn og hleðslan losnar í eldingar; eða með öðrum orðum, það verður skammhlaup. Oftast hlaupa eldingar milli staða í mekkinum sem hafa misjafna rafhleðslu en stundum til jarðar.

Eiturgufur
Banvæn eiturefni koma úr eldgosum.  Þetta eru kolefnissambönd sem eru algjörlega lyktarlaus og sjást ekki.  Eiturefni þessi setjast í lægðir utandyra og í kjallara húsa, í nágrenni gjósandi eldstöðva og valda köfnun manna og dýra.

Eiturefni
Gjóskan frá eldstöðvum mengar gróður og vatn og eru grasbítum sérstaklega hættuleg.   Öskukornin eru agnarsmá og oddhvöss og valda særindum í augum, öndunarfærum og meltingarveg.  Flúormengunin stuðlar að kalkskorti og flúoreitrun leiðir til gadds og Fætlis í skepnum.
Gaddur veldur breytingum í biti dýranna og gerir þeim erfiðara með að bíta, tyggja og jórtra.
Fætlur eru beinmyndanir í fótleggjum og valda helti.

Jökulhlaup

Jökulhlaup verða þar sem jarðhiti eða eldstöðvar eru undir jöklum.  Hitinn bræðir jökulinn og þegar vatnsyfirborðið er orðið nógu hátt, til að lyfta jöklinum þá verður jökulhlaup.

Við gos undir jökli, verður hætta á hlaupi í ám, sem valdið getur tjóni á mannvirkjum.  Jökulhlaupin geta komið skyndilega og af miklum krafti.  Stórir ísjakar geta ferðast með hlaupinu og skemmir flest sem á vegi þeirra verður.  Myndin sýnir hvar helst má vænta jökulhlaupa.

Island_jokulhlaup