Tölvugert þrívíddarmyndband af gígunum í Holuhrauni

16.-19. mars, rúmum tveimur vikum eftir að eldgosinu í Holuhrauni lauk fór Svarmi ehf ásamt Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands að Holuhrauni. Tilgangurinn var að kortleggja hluta hraunsins með ómönnuðum loftförum. Afraksturinn er m.a. loftmyndir í hárri upplausn, þrívíddarlíkön og hæðarmódel. Vinnsla fer nú fram á gögnunum og er markmið verkefnis að hægt verði að mæla rúmmál og þykkt hrauns, hæð myndana á yfirborði auk þess að þróa aðferðir við gerð þrívíddarlíkana.

Hraunið er á stærð við Reykjavík alls 84,1 km2 og flogið var yfir nyrsta hluta hraunsins, gígana á sjálfri gossprungunni og suðausturhluta við Jökulsá á Fjöllum. Jarðvísindamenn áætla að þónokkur breyting muni eiga sér stað á Holuhrauni á næstu misserum og þá sérstaklega á gígunum og verður því áhugavert að bera þessi gögn við seinni tíma gögn sem safnað verður með ómönnuðum loftförum. Hægt verður að sjá jafnvel minstu breytingar á hrauninu eitthvað sem ekki hefur verið mögulegt áður að gera.

Myndbandið er aðgengilegt á vefsíðu Svarma ehf. Nánar má lesa um Svarma á vefsíðu fyrirtækisins www.svarmi.is

holuhraun_svarmi