Ráðstefna almannavarnarkerfis Evrópu

Dagana 6. og 7. maí 2015 sóttu fulltrúar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra ráðstefnu almannavarnakefis Evrópu (European Civil Protection Forum), en ráðstefnan er haldin annað hvert ár. Evrópska almannavarnakerfið (European Civil Protection Mechanism) er rekið af Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins en það er þó ekki tengt beinni aðild að Evrópusambandinu sjálfu. Íslendingar hafa til dæmis verið fullgildir aðilar að kerfinu frá árinu 2001 (í gegnum EES samninginn) og í ár gerðust Tyrkir fullgildir aðilar að kerfinu. 

Ráðstefnan var mjög umfangsmikil og hana sóttu um 1000 einstaklingar hvaðanæva að úr heiminum. Dagskráin saman stendur af stórum og smáum fundum, pallborðsumræðu og sýningum. Víðir Reynisson, deildarstjóri, tók meðal annars þátt í hringborðsfundi allra yfirmanna almannavarna þeirra ríkja sem eiga aðild að evrópska almannavarnakerfinu, og er þetta í fyrsta skiptið sem slíkur fundur er haldinn í tengslum við ráðstefnuna sem nú var haldin í fimmta sinn. Ísland bar talsvert á góma á fundinum enda eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 mörgum enn í fersku minni, svo ekki sé nú talað um nýafstaðið eldgos í Bárðarbungu, auk þess sem Katla er fyrir löngu komin á tíma. Claus Sörensen, framkvæmdastjóri (Director-General) almannavarna- og mannúðarmála, en báðir þessir málaflokkar heyra undir sömu deild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem kallast ECHO (EU Humanitarian Aid and Civil Protection department), gat þess sérstaklega að það skipti öryggi Evrópu miklu máli að vel væri fylgst með íslensku eldfjöllunum og lagði í því sambandi áherslu á mikilvægi þátttöku íslenskra almannavarna í evrópska almannavarnakerfinu.

Almannavarnadeildin, í samvinnu við Veðurstofu Íslands, var með sýningarbás á sýningarsvæði ráðstefnunnar þar sem FUTUREVOLC rannsóknarverkefnið var sérstaklega kynnt, enda er það að stórum hluta fjármagnað af sjöundu rammaáætlun Evrópusambandsins. Það er auk þess eitt af megin markmiðum FUTUREVOLC að miðla upplýsingum um íslensk eldfjöll og eldfjallakerfi til aðildarríkja Evrópusambandsins í gegnum evrópska almannavarnarkerfið. Það var því sérstaklega ánægjulegt þegar Christos Stylianides, framkvæmdastjóri (EU Commissioner) ECHO heimsótti FUTUREVOLC básinn þar sem hann ræddi stuttlega við Víði Reynisson um íslensk eldfjöll og mikilvægi FUTUREVOLC verkefnisins. 

Í framhaldi af ráðstefnunni funduðu fulltrúar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra með stjórnendum almannavarnastjórnstöðvar Evrópu sem kallast ERCC (Emergency Responce Coordination Centre). Markmið fundarins var að vekja athygli á þátttöku deildarinnar í FUTUREVOLC verkefninu og til þess að undirbúa innleiðingu afurða verkefnisins í evrópska almannavarnakerfið. Starfsmenn vísindamiðstöðvar ESB (Joint Research Centre) sem staðsett er á Ítalíu, tóku þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað auk þess sem fulltrúi sendiráðs Íslands í Brussel sat fundinn.  

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá ráðstefnunni, en hér má sjá opinberu myndasíðu ráðstefnunnar

17893149472_710d1e36e7_k

Vidir Reynisson og Christos Stylianides.

17708327438_7835edb25e_k

Einar Petur Heidarsson, Christos Stylianides og Vidir Reynisson.

17896168505_5b7ca6daff_k

Einar Petur Heidarsson, Christos Stylianides, Vidir Reynisson og Gudrun Johannesdottir.

20150507_154233

Claus Sorensen og Vidir Reynisson.

    
20150507_103818

Gudrun Johannesdottir, Einar Petur Heidarsson fra almannavarnadeild og Sara Barsotti fra Vedurstofu Islands.

ERCC_2

Ian Clark, Vidir, Gudrun og Einar.

ERCC_3

Ian Clark, Vidir, Gudrun og Einar.