Myndir af eldgosinu í Holuhrauni – uppfært

Eldgosið í Holuhrauni hefur nú staðið yfir í 57 daga. Hraunbreiðan var síðast mæld fyrir helgi og var hún þá rúmlega 63 ferkílómetrar að stærð.

Myndirnar hér fyrir neðan sýna gosið frá mismunandi sjónarhorni. Fyrst er mynd sem Egill Aðalsteinsson tók fyrir Vísir.is, en myndin er birt með góðfúslegu leyfi Vísis. Myndin sýnir vel svart og heitt hraunið í snjóhvítu landslaginu. Hraunáin, ofan á hrauninu, er glóandi og vel greinileg á svörtu yfirborðinu.

Þar fyrir neðan eru þrjár myndir sem teknar eru af Landsat 8 gervitunglinu. Sú fyrsta er hitamynd en hinar tvær sýna vel yfirborð Vatnajökuls, Bárðarbungu og eldstöðvarnar í Holuhrauni. Smellið á myndirnar til að sjá þær í fullri upplausn. Ef myndin af Vatnajökli er skoðuð vel má sjá sigkatla í öskju Bárðarbungu. Katlarnir, sem eru þrír, eru þekktir og mynduðust ekki í þessum hræringum en þeir hafa þó verið að dýpka síðustu vikurnar vegna aukinnar jarðhitavirkni í öskju Bárðarbungu. Einnig má sjá fimm aðra katla á yfirborði jökulsins sem myndast hafa í þessari umbrotahrinu. Tveir þeirra eru við austurbrún öskju Bárðarbungu og þrír á Dyngjujökli. Talið er að þeir hafi allir myndast við lítil eldgos undir jöklinum áður en eldgosið kom upp í Holuhrauni þann 31. ágúst. Ef vel er rýnt í myndina má einnig sjá útlínur sigsins í öskju Bárðarbungu sem nú mælist 40 metrar frá því umbrotin hófust þann 16. ágúst. Til hægri á myndinni er Hálslón, uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar, vel greinilegt. Flatarmál Hálslóns er um 57 ferkílómetrar, eða aðeins minna en hraunbreiðan í Holuhrauni.

Því næst er mynd sem tekin er með vefmyndavél M&T sem staðsett er á Vaðöldu. Myndin var tekin í dag, 27. október kl. 15:20. Myndin sýnir vel hraunbreiðuna frá suðri til norðurs. Nyrsti endi hraunbreiðunnar hefur runnið yfir grunnvatnssvæði og þess vegan stígur gufa stöðugt upp af hrauninu á því svæði. Gufan er einnig greinilega á mynd Egils.

Að lokum eru þrjár myndir sem teknar voru í flugi vísindamanna yfir umbrotasvæðið á föstudaginn var, þann 24. október. Fyrst er mynd, Þórdísar Högnadóttur, af Bárðarbungu þar sem vel má greina sigkatlana í yfirborði jökulsins og svo tvær myndir, sem Magnús Tumi Guðmundsson, tók af sigkötlunum.

 

Holuhraun_Visir_Egill_20141027

Holuhraun. Mynd Egill á Vísir.is 20141027.

Hitamynd_2207_20141024

Landsat 8 gervitunglamynd frá 24.10.2014. Mynd Landhelgisgæslan og Jarðvísindastofnun HÍ.

Vatnajokull_20141024

Landsat 8 gervitunglamynd af Bárðarbungu, Dyngjujökli og eldstöðvunum í Holuhrauni. Mynd Landhelgisgæslan og Jarðvísindastofnun HÍ.

Landsat_20141024

Landsat 8 gervitunglamynd af eldstöðvunum í Holuhrauni sem hér eru að hluta til undir skýjahulu. Mynd Landhelgisgæslan og Jarðvísindastofnun HÍ.

Holuhraun_MOGT_201401027

Mynd úr vefmyndavél M&T á Vaðöldu 27.10.2014 kl. 15:20. Mynd M&T.

Bbunga_DisaHogna_20141024

Bárðarbunga 24.10.2014. Horft úr norðvestri. Mynd Þórdís Högnadóttir.

Bbunga_ketill_aVbrun_MagnusTG_20141024

Sigketill á vestari brún Bárðarbungu 24.10.2014. Mynd Magnús Tumi Guðmundsson.

Bbunga_SAketill_MagnusTG_20141024

Suðaustur sigketill í Bárðarbungu 24.10.2014. Mynd Magnús Tumi Guðmundsson.