Myndir af siggenginu (troginu) í Holuhrauni
Myndirnar hér fyrir neðan sýna vel siggengið sem myndast hefur yfir bergganginum sem skriðið hefur úr Bárðarbungu frá 16. ágúst. Siggengið er um 1 km á breidd og teygir sig um 2 km undir Dyngjujökul og 10-15 km fram á Holuhraunið. Gossprungurnar tvær í Holuhrauni eru báðar á siggenginu. Sú fyrri og stærri sem opnaðist 31. ágúst er við jaðar siggengisins en sú sem opnaðist í gær, 5. september, er á miðju siggengisins.
Siggengið hefur einnig verið kallað sigdalur en ekki eru allir sáttir við að nota það hugtak og telja það vísa til stærri fyrirbæra. Nær væri að tala um trog eða sigtrog samanber þorratrog, sem flestir ættu að þekkja. Trog eru með skarpar brúnir. Myndirnar af siggenginu eru tekna 3. september 2014. Neðsta myndin sýnir vel eldsumbrotin í Holuhrauni. Sú mynd er tekin 5. september.