Almenningur getur nú skráð brennisteinsmengun á vefsíðu Veðurstofunnar

Útbúið hefur verið sérstakt skráningarform þar sem hægt er að skrá hvort vart hafi orðið við brennisteinslykt, hvar viðkomandi var staddur og hvort einhver líkamleg einkenni hafi fylgt. Skráningar birtast síðan í rauntíma á vefkorti sem má sjá hér á síðunni. Hver punktur sýnir eina skráningu og liturinn segir til um hvort mengunar hafi orðið vart (rauður) eða ekki (grænn). Ef smellt er á punktinn birtast frekari upplýsingar um viðkomandi atvik.

Hér er hlekkur á vefsvæðið á vef Veðurstofunnar.

Veðurstofan birtir einnig spá um gasdreifingu á vefsíðu sinni. Spáin fyrir daginn í dag er:

Líklegt áhrifasvæði loftmengunar frá jarðeldunum í Holuhrauni er í dag einkum bundið við landsvæðið nálægt gosstöðvunum og við svæðið til norðausturs, frá Herðubreið í norðri og Kárahnjúkum í suðri. Í dag er vindur á svæðinu mjög hægur og í slíkum aðstæðum getur mengunin sest fyrir í lægðum í landslagi og náð þar háum styrk.
Í kvöld er gert ráð fyrir norðaustlægri átt í neðstu lögum andrúmsloftsins og þá færist mengunin heldur til suðvesturs, og markast þá af Hofsjökli í vestri og Tungnárjökli í suðri.
Á morgun gera spár ráð fyrir fremur hægri austanátt á svæðinu, og má þá búast við loftmengun til vesturs frá gosstöðvunum, að Hofsjökli.

Hlekkur á þá síðu er hér.

VI_bottom_gradient_office_web_pos_rgb