Upplýsingar um loftgæði (brennisteinsdíoxíð, SO2)
12.9.2014 Á fundi vísindamannaráðs almannavarna í morgun kom eftirfarandi fram varðandi loftgæði:
Loftgæði í byggð:
Spár gefa til kynna að hár styrkur brennisteinsgass (SO2) og annarra gosefna gæti orðið á norðanverðum Austfjörðum, Fljótsdal, Héraði, Jökuldal og Vopnafirði. Spáin gefur til kynna að styrkur geti orðið mestur á Héraði seinnipartinn. Svæði með háum styrk gæti orðið stærra. Umhverfisstofnun stefnir að því að setja upp mælitæki á Akureyri og Suðurlandi. Taka verður tillit til landfræðilegra aðstæðna á hverjum stað við mat loftgæða. Ef fólk finnur fyrir óþægindum er mælt með að halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Tafla um viðbrögð við loftmengun hefur verið birt á vef Umhverfisstofnunar www.ust.is. Hægt er að fylgjast með mælingum á loftgæðum á síðunni loftgæði.is. Veðurstofan birtir textaspár á vef sínum og viðvaranir eftir því sem aðstæður breytast.
Tilmæli og leiðbeiningar frá Sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun má finna á heimasíðum stofnananna.
Loftgæði á gossvæðinu:
Mikið gasstreymi er áfram í og kringum eldstöðina. Bráð lífshætta stafar af gasinu og ekki er óhætt að nálgast svæðið án gasmæla og gasgríma. Við gosstöðvarnar má búast við sífelldum staðbundnum breytingum á vindátt, vegna hitauppstreymis, sem gera aðstæður þar mjög hættulegar. Allir vísindamenn á vettvangi hafa gasmæla á sér til þess að tryggja öryggi þeirra við störf.
Nokkrir tenglar varðandi loftgæði:
Umhverfisstofnun
Umhverfisstofnun á Facebook
Mælingar á loftgæðum á Íslandi
Tímabundin síða Umhverfisstofnunar um loftgæði
Matvælastofnun (Áhrif brennisteinsdíoxíðs á dýr)