Virk löggæsla á lokaða svæðinu við Holuhraun

Allt frá því jarðhræringarnar fyrir norðan Vatnajökul hófust um miðjan ágúst síðastliðinn hefur hættan á flóðum vegna eldgosa undir jökli verið yfirvofandi. Ákveðið var að loka svæðinu norðan jökulsins vegna þessarar hættu.  Eftir að eldgosið í Holuhrauni hófst hafa eiturgufur og aðrar hættur við gosstöðvarnar verið almannavarnayfirvöldum áhyggjuefni.   Bráð lífshætta getur stafað af eiturgasi og ekki er óhætt að nálgast svæðið án gasmæla og gasgríma, einnig gera sífelldar staðbundnar breytingar á vindátt aðstæður þar mjög hættulegar.

Til að byrja með fengu vísindamenn sérstakt leyfi almannavarnayfirvalda til að fara um svæðið til rannsókna og gagnaöflunar. Einnig hefur fréttamönnum frá  fjölmiðlum verið heimilað að fara inn á svæðið gegn sérstöku leyfi almannavarna háð ákveðnum skilyrðum.
Aðrir hafa ekki fengið leyfi til að fara inn á lokaða svæðið. Lögreglan er með gæslu á svæðinu og notast hún við breytta jeppa við gæsluna. Þeir sem hafa farið inn á svæðið án heilmildar hafa hlotið fjársektir auk þess að sæta kæru.

Logreglubill_20140912