Fundur vísindamannaráðs almannavarna 14. september

14.09. 2014 kl. 11:30 – Bárðarbunga
Fundi vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Fundinn sat einnig fulltrúi Umhverfisstofnunar.
Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom eftirfarandi fram:
·         Staða og horfur um eldgosið í Holuhrauni og áframhaldandi sig í Bárðarbungu eru svipaðar. Hægt hefur á framrás hraunsins.  Það breiðir meira úr sér og minni sýnileg virkni er í gosgígunum.
·         Sig í Bárðarbungu heldur áfram og er nú mest um 23 m.
·         Í flugi vísindamanna yfir svæðið kom í ljós að nýjar hrauntungur eru að brjótast út þvert á aðalhraunfarveginn til austurs og vesturs. Stærsta hrauntungan teygist til austurs og var orðin 300 m breið og  2 km löng kl 18:00 í gær. Gosský nær  í 4 km hæð en lækkar þegar fjær dregur.
·         Skjálftavirkni er svipuð og hefur verið síðustu daga, en skjálftar eru heldur færri og minni. Rúmlega 60 jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti. Flestir við Bárðarbungu og ganginn undir Dyngjujökli. Stærsti skjálftinn, 4,0 að stærð, varð laust fyrir kl. 7 við suðurbarm öskjunnar. Þrír aðrir skjálftar, rúmlega 3 að stærð, urðu við öskjubarminn í nótt.
·          GPS mælingar sýna áframhaldandi sig í Bárðarbungu og óverulegar jarðskorpuhreyfingar norðan Vatnajökuls umhverfis ganginn.
·         Loftgæði í byggð:
o   Í gær mældist töluverð gasmengun á Egilsstöðum og í Reyðarfirði en spár gera ráð fyrir því að gasmökkinn leggi til norðurs næsta sólarhring. Gera má ráð fyrir háum styrk í Mývatnssveit, Kelduhverfi, Tjörnesi, Húsavík, Aðaldal og Reykjahverfi.
·         Leiðbeiningar:
o   Ef fólk finnur fyrir óþægindum er mælt með að halda sig innandyra, loka gluggum, auka kyndingu og slökkva á loftræstingu. Gott er að lofta vel út þegar loftgæði eru góð. Tafla um viðbrögð við loftmengun hefur verið birt á vef Umhverfisstofnunar www.ust.is. Hægt er að fylgjast með mælingum á loftgæðum á síðunni loftgæði.is. Veðurstofan birtir textaspár á vef sínum og viðvaranir eftir því sem aðstæður breytast.
o   Tilmæli og leiðbeiningar frá Sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun má finna á heimasíðum stofnananna.www.ust.is og www.landlaeknir.is
o   Veðurfræðingar Veðurstofu munu koma fréttum af brennisteinsgasi á framfæri í heðfbundnum veðurfréttatímum á RUV.
o   Umhverfisstofnun kannar möguleika á því að fá fleiri mæla til landsins svo betur megi fylgjast með gosmengn frá eldgosinu.
o   Hægt er að senda inn fyrirspurnir og upplýsingar til Umhverfisstofnunar vegna loftmengunnar  á netfangiðgos@ust.is. Umhverfisstofnun óskar sérstaklega eftir upplýsingum frá fólki sem hefur lent í háum styrk; hvar það var statt, tímasetningu, lýsingum á gasmekki eins og lit og skyggni og lýsingum á áhrifum (sviði í augum o.s.frv.). Fljótlega verður virkjuð upplýsingasíða á vef Veðurstofunnar fyrir þannig upplýsingagjöf.
·         Loftgæði á gosstað:
o   Mikið gasstreymi er áfram í og kringum eldstöðina. Bráð lífshætta stafar af gasinu og ekki er óhætt að nálgast svæðið án gasmæla og gasgríma. Við gosstöðvarnar má búast við sífelldum staðbundnum breytingum á vindátt, vegna hitauppstreymis, sem gera aðstæður þar mjög hættulegar. Vísindamenn á vettvangi hafa gasmæla til þess að tryggja öryggi sitt við störf. 
 
·         Þrír möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:
o   Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.
o   Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annar staðar undir jöklinum.
o   Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkuð.
Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.
·         Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur fyrir Bárðarbungu og kóði fyrir Öskju er grænn.
avdlogo09-150x151