Fundur vísindamannaráðs almannavarna 15. september 2014
15.09. 2014 kl. 11:30 – Bárðarbunga
Fundi vísindamannaráðs almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Fundinn sat einnig fulltrúi Umhverfisstofnunar og sóttvarnarlæknis.
Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom eftirfarandi fram:
- Staða og horfur um eldgosið í Holuhrauni og áframhaldandi sig í Bárðarbungu eru svipaðar og í gær. Vegna aðstæðna á vettvangi hafa vísindamenn fært sig af svæðinu og því eru ekki nýjar upplýsingar um framrás hraunsins og þróun gossins.
- Sig í Bárðarbungu heldur áfram eins og undanfarna daga. Út frá GPS mælingum hefur sigið í miðri öskjunni verið um 50 cm á dag.
- Skjálftavirkni er svipuð og hefur verið síðustu daga. Flestir skjálftanna eru við Bárðarbungu og ganginn undir Dyngjujökli. Stærsti skjálftinn, M5,0 að stærð, varð rétt uppúr kl. 8 í morgun við suðurbarm öskjunnar. Fjórir aðrir skjálftar, rúmlega 3 að stærð, urðu við öskjubarminn í nótt.
- GPS mælingar sýna óverulegar jarðskorpuhreyfingar umhverfis ganginn norðan Vatnajökuls.
- Loftgæði í byggð:
- Í gær mældist töluverð gasmengun á Mývatnssveit. Hæsti toppur mældist 1250 míkrógrömm í rúmmetra. Líklegt áhrifasvæði loftmengunar vegna jarðelda í Holuhrauni er í dag norður af gosstöðvunum og markast af Bárðardal í vestri og Hólasandi í austri. Í kvöld dregur úr vindi og verður hann vestlægari, áhrifasvæðið færist þá í austur og eru þá líkur á megnun frá Mývantssveit og austur í Vopnafjörð. Á morgun er gert ráð fyrir hægari suðvestan og vestanátt og líklegt áhrifasvæði er þá frá Vopnafirði í norðri og suður eftir Austfjörðum.
- Leiðbeiningar:
- Ef fólk finnur fyrir óþægindum er mælt með að halda sig innandyra, loka gluggum, auka kyndingu og slökkva á loftræstingu. Gott er að lofta vel út þegar loftgæði eru góð. Tafla um viðbrögð við loftmengun hefur verið birt á vef Umhverfisstofnunar www.ust.is. Hægt er að fylgjast með mælingum á loftgæðum á síðunni loftgæði.is. Veðurstofan birtir textaspár á vef sínum og viðvaranir eftir því sem aðstæður breytast.
- Tilmæli og leiðbeiningar frá Sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun má finna á heimasíðum stofnananna. ust.is og www.landlaeknir.is
- Veðurfræðingar Veðurstofu munu koma fréttum af brennisteinsgasi á framfæri í heðfbundnum veðurfréttatímum á RUV.
- Umhverfisstofnun kannar möguleika á því að fá fleiri mæla til landsins svo betur megi fylgjast með gosmengn frá eldgosinu.
- Hægt er að senda inn fyrirspurnir og upplýsingar til Umhverfisstofnunar vegna loftmengunnar á netfangið gos@ust.is. Umhverfisstofnun óskar sérstaklega eftir upplýsingum frá fólki sem hefur lent í háum styrk; hvar það var statt, tímasetningu, lýsingum á gasmekki eins og lit og skyggni og lýsingum á áhrifum (sviði í augum o.s.frv.). Fljótlega verður virkjuð upplýsingasíða á vef Veðurstofunnar fyrir þannig upplýsingagjöf.
- Þrír möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:
- Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.
- Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annar staðar undir jöklinum.
- Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkuð.
Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.
Frá Veðurstofu Íslands:
- Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur fyrir Bárðarbungu.