Myndir úr leiðangri almannavarna og vísindamanna að gosstöðvunum í Holuhrauni

Á þriðjudaginn var, 11. nóvember, flugu starfsmenn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra ásamt vísindamönnum frá Jarðvísindastofnun HÍ að gosstöðvunum í Holuhrauni. Markmið ferðarinnar var að kanna framgang gossins, taka sýni úr hraunjaðrinum og síðast en ekki síst að grafa GPS stöðina í öskju Bárðarbungu upp úr snjónum sem fallið hefur á jökulinn síðustu vikurnar. GPS stöðin var að fenna í kaf og því nauðsynlegt að ná henni upp svo áfram sé hægt að fylgjast með sigi öskjunnar. Fjórir menn á vélsleðum frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun ætluðu að koma til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar og hjálpa til við að grafa upp GPS stöðina. Ferðin gekk í alla staði mjög vel fyrir utan það að ekki var hægt að lenda á Bárðarbungu. Það kom því í hlut vélsleðamannanna að grafa GPS stöðina upp.

Í ferðinni voru vísindamenn Jarðvísindastofnunnar, sem dvalið hafa í Dreka við Öskju, sóttir og lent með þá sunnan við hraunjaðrinn þar sem hraunið breiðir nú úr sér á um fjögurra kílómetra breiðum kafla. Svæðið er algjörlega lokað vegna flóðahættu úr Dyngjujökli og er aðeins talið öruggt að vera þar á ferð á þyrlu, sem gæti lyft sér upp fyrir flóðið ef gos kæmi upp í jöklinum. Það er því ekki á hverjum degi sem vísindamennirnir eru á ferð á því svæði.

Í fluginu kom einnig vel í ljós að eldgosið virðist vera mjög stöðugt og að ekki hafi orðið miklar breytingar á hraunrennslinu síðustu vikurnar. Hraun flæðir stöðugt úr gígnum og rennur í tignarlegri hrauná til suðausturs. Þá má einnig sjá að minni hrauná rennur til norðurs. Sú kvika nær þó aðeins að breikka hraunbreiðuna mjög lítið til norðurs en þar sem kvikan nær í gegn er hraunjaðarinn um 700°c heitur.

Gasmælar og gasgrímur voru að sjálfsögðu með í för og mældist gasmengunin töluverð þegar flogið var yfir gíginn. Annars lá vindur til norðvesturs og því frá þeim stöðum þar sem þyrlan lenti. Í lok ferðarinnar var flogið yfir brúnna yfir Jökulsá á Fjöllum við Upptyppinga. Hún reyndist vera á sínum stað eins og reiknað var með.

Starfsmaður almannavarna tók meðfylgjandi myndir í ferðinni, fyrir utan þá síðustu sem tekin var af starfsmanni Jarðvísindastofnunar í öskju Bárðarbungu.

mynd (1)

TF-GNA gerð tilbúin til brottfarar. Mynd almannavarnir.

mynd (2)

Ekki tókst að lenda á Bárðarbungu og aðstoða vélsleðahóp Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunar við uppgröft á GPS tæki. Mynd almannavarnir.

mynd (3)

Hópur vísindamanna frá Jarðvísindastofnun sóttur í Drekaskála og fluttur að Holuhrauni. Mynd almannavarnir.

mynd (4)

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, hefur vökul augu á vísindamönnum. Mynd almannavarnir.

mynd (5)

TF-GNA við hraunjaðarinn sem var stöðugur og enginn nýleg framrás hrauns nálæg. Mynd almannavarnir.

mynd (6)

TF-GNA lent á nýjum stað og Kverkfjöll í baksýn. Mynd almannavarnir.

mynd (9)

Yfirflug yfir gosstöðvarnar að kvöldi. Mynd almannavarnir.

mynd (10)

Hraunáin og gosgýgarnir í Holuhrauni. Mynd almannavarnir.

mynd (8)

Áhöfn þyrlu virðir fyrir sér framgang hraunsins. Mynd almannavarnir.

mynd (11)

Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum við Upptyppinga skoðuð á heimleið. Mynd almannavarnir.

Bardarbunga_GPS_20141112

Starfsmenn Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar HÍ vinna við að hækka GPS stöðina í öskju Bárðarbungu. Mynd Jarðvísindastofnun HÍ.