Yfirlit yfir þróun umbrota í Bárðarbungu og eldgoss í Holuhrauni

  • Á fundi Vísindamannaráðs, í dag miðvikudaginn 3. desember, var farið yfir gögn um þróun atburða í Bárðarbungu og eldgossins í Holuhrauni frá upphafi umbrotanna. Flest fyrirliggjandi gögn sýna að heldur hefur dregið úr bæði sigi Bárðarbungu og gosinu í Holuhrauni. Jarðskjálftavirkni og hraunflæði er þó enn mikið í samanburði við þau eldgos sem orðið hafa á Íslandi í yfir hundrað ár. Niðurstöður fundarins eru eftirfarandi:
    • Jarðskjálftar í Bárðarbungu: Mjög mikil skjálftavirkni hefur verið frá miðjum ágúst. Hún náði hámarki í fyrri hluta september en hefur farið hægt minnkandi frá þeim tíma en er þó enn mjög mikil. Þessi jarðskjálftahrina er ein sú mesta sem mælst hefur í eldfjalli í heiminum.
    • Jarðskjálftar í berggangi frá Bárðarbungu að Holuhrauni: Mjög mikil skjálftavirkni var samfara framrás gangsins seinnihluta ágúst en mikið dró úr henni eftir að gosið hófst í Holuhrauni. Enn verða jarðskjálftar í ganginum en þeir eru litlir og tiltölulega fáir.
    • Öskjusigið í Bárðarbungu: Nokkrum dögum eftir að umbrotin hófust byrjaði botn öskjunnar að falla um allt að 80 cm á dag en síðan hefur hægt jafnt og þétt á siginu og er það nú um 25 cm á dag. Sigið hefur lögun skálar og er það mest um 50 metrar í miðju hennar en minna til jaðranna. Sigið nær til um 80 ferkílómetra svæðis og rúmmál þess er nú um 1,4 rúmkílómetrar. Sighraðinn í september samsvaraði flæði undan Bárðarbungu sem nam 200-250 rúmmetrum á sekúndu. Heldur hefur dregið úr flæðinu og er það nú um 130 rúmmetrar á sekúndu. Öskjusig eru fátíð og hafa ekki orðið á Íslandi síðan 1875 þegar Öskjuvatn myndaðist.
    • Jarðskorpuhreyfingar: Miklar jarðskorpuhreyfingar mældust á meðan að berggangurinn var að myndast og sýndu vel framrás gangsins og sig inn að miðju Bárðarbungu. Túlkun GPS og bylgjuvíxlmælinga úr gervitunglum benda til þess að rúmmál kviku í ganginum sé um 0,5 rúmkílómetrar og að við upphaf gossins hafi hann verið fullmótaður. Eftir að gos hófst hefur landsig verið stöðugt, en hægt minnkandi, í átt að Bárðarbungu.
    • Eldgosið í Holuhrauni: Eitt helsta sérkenni gossins sem hófst þann 31. ágúst er mikið og óvenju stöðugt hraunflæði. Kvikan sem upp kemur er fremur frumstætt basalt með efnafræðileg einkenni eldstöðvakerfis Bárðarbungu. Bergfræði kvikunnar bendir til að hún hafi náð jafnvægi á 9-20 km dýpi sem þýðir að síðasti geymslustaður hennar hafi ekki verið ofar í jarðskorpunni en sem því nemur. Hraunbreiðan er nú 76 ferkílómetrar. Mat á rúmmáli hraunsins er erfiðara en mælingar á flatarmáli. Mælingar úr flugi 4. og 26. nóvember benda til þess að rúmmál hraunsins sé nú um 1,0 rúmkílómetri en óvissan er 0,3 rúmkílómetrar. Flæði hrauns í september var nærri 200 rúmmetrum á sekúndu en meðaltal fyrir nóvember er talið vera undir 100 rúmmetrum á sekúndu. Nýja hraunið er það stærsta sem runnið hefur hér á landi frá Skaftáreldum (1783-1784) og sennilega þriðja stærsta hraun sem runnið hefur á jörðinni á sama tímabili.
    • Gas: Í fyrsta skiptið í 150 ár hefur gasmengun frá eldgosi áhrif víða um land. Ástæða þessa er hversu stórt gosið er og hversu lengi það hefur staðið. Flæði brennisteinsdíoxíðs (SO2) í gosmekkinum hefur mest mælst 1300 kílógrömm á sekúndu en meðaltal fyrir fyrsta mánuð gossins er talið hafa verið 400 kílógrömm á sekúndu. Mælingar á heildarflæði gass eru erfiðar í framkvæmd og er óvissa þeirra veruleg. Sennilegt er að gasflæði minnki í takt við minnkandi hraunflæði en sú þróun hefur ekki verið staðfest með mælingum. Fá tilfelli með háum SO2 styrk hafa orðið í byggð undanfarnar vikur í samanburði við það sem var í september og október, en þar gætu veðuraðstæður ráðið meiru en magn gass sem streymir frá gosstöðvunum.
    • Ef þróunin verður með sama hætti og verið hefur mun bæði sig Bárðarbungu og eldgosið í Holuhrauni halda áfram í að minnsta kosti nokkra mánuði. Þróunin gæti orðið með öðrum hætti og sviðsmyndir um eldgos undir jökli og í Bárðarbungu eru enn mögulegar.
  • Tveir skjálftar í Bárðarbungu stærri en M5,0 mældust frá hádegi á mánudag. Sá fyrri var M5,2 á mánudaginn, 1. desember, kl. 12:52 á suðausturbrún öskjunnar og sá síðari mældist M5,4 á þriðjudaginn, 2. desember, kl. 02:18 á norðurbrún hennar. Frá hádegi á mánudag mældust 10 skjálftar á milli M4,0-5,0 og 10 skjálftar á milli M3,0-4,0. Alls mældust um 120 skjálftar við Bárðarbungu á tímabilinu.
  • Lítil jarðskjálftavirkni mældist við bergganginn og gosstöðvarnar í Holuhrauni frá hádegi á mánudag.
LANDSAT_8_20141202

LANDSAT 8 mynd frá NASA og USGS tekin þann 2.12.2014 kl 22:14. Mynd Jarðvísindastofnun HÍ.

LANDSAT_8_dagur_20141202

LANDSAT 8 mynd frá NASA og USGS tekin 2.12.2014 kl. 12:34. Mynd Jarðvísindastofnun HÍ.