Óbreytt ástand

Mikil umræða hefur verið um aðgang almennings að gossvæðinu í Holuhrauni og þær lokanir sem verið hafa í gildi frá því jarðhræringarnar hófust í Bárðarbungu 16. ágúst síðastliðinn. Eins og komið hefur fram í dag, og raunar allt frá því þessi atburðarás hófst, þá eru enn mjög miklar jarðhræringar á svæðinu öllu. Jarðskjálftar á svæðinu eru taldir í hundruðum á degi hverjum og virðist ekkert lát vera á því. Þá hafa vísindamenn greint sigdal (trog) sem nær tvo kílómetra, hið minnsta, undir sporð Dyngjujökuls.

Frá því þessi atburðarás hófst hefur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fundað daglega með vísindamönnum Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands þar sem farið hefur verið yfir þróun mála. Í framhaldi af þeim fundum hafa verið haldnir fundir með Lögreglustjórunum á Húsavík og Seyðisfirði þar sem ákvarðanir hafa verið teknar um viðbrögð við þeirri náttúruvá sem vísindamennirnir hafa greint. Einnig hefur verið fundað með viðbragðsaðilum þar sem lagt hefur verið mat á þær bjargir sem hægt er að kalla til og á hve skömmum tíma hægt væri að rýma svæðið ef þess gerðist þörf. Einnig hefur verið fundað með fulltrúum Vatnajökulsþjóðgarðs sem hafa umsjón með stórum hluta þess svæðis sem lokað hefur verið.

Það er enn mat þeirra aðila, sem fundað hafa um þessi mál síðustu vikurnar að enn sé ekki óhætt að opna fyrir almenna umferð nærri gosstöðvunum vegna þeirrar hættu, sem þar er til staðar.

Myndin hér fyrir neðan er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir yfirfarna jarðskjálfta frá 16. ágúst til 3. september.

Jardskjalftar_yfirfarnir_fra_upphafi_IMO_03092014

Yfirfarnir jarðskjálftar frá 16. ágúst til 3. september. Veðurstofa Íslands.