Fundur vísindamannaráðs almannavarna 13. september.
13.09. 2014 kl. 11:30 – Bárðarbunga
Fundi vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Fundinn sat jafnframt fulltrúi Umhverfisstofnunar.
Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom eftirfarandi fram:
- Staða og horfur um eldgosið í Holuhrauni og áframhaldandi sig í Bárðarbungu eru óbreyttar.
- Sig Bárðarbungu heldur áfram og jarðskjálftavirkni er með líkum hætti og verið hefur síðustu daga. GPS mælir á Bárðarbungu sýnir um hálfs metra sig síðasta sólarhringinn.
- Gangur eldgossins í Holuhrauni er svipaður og verið hefur síðustu daga. Hraun rennur áfram í farveg Jökulsár á Fjöllum.
- Flatarmál hraunsins mældist 24,5 ferkílómetrar síðdegis í gær.
- Uppsafnað rúmmál hraunsins er nú áætlað að minnsta kosti 200 milljón rúmmetrar.
- Gasský leggur frá gosstöðvunum til austurs. Mjög hár styrkur brennisteins (SO2) mældist á Reyðarfirði um kl 10:00 í gærkvöldi. Hæstu gildin voru tæplega 4000 míkrógrömm á rúmmetra sem hæstu gildi sem mælst hafa hér á landi. Hár toppur mældist einnig á Egisstöðum í gær uppá 685 míkrógrömm á rúmmetra.
- Viðvörun var send út með SMS skilaboðum í alla gsm síma í Fjarðarbyggð.
- Loftgæði í byggð:
- Spár gefa til kynna að hár styrkur brennisteinsgass (SO2) og annarra gosefna gæti orðið á norðanverðum Austfjörðum, Fljótsdal, Héraði, Jökuldal og á Langanesi. Spáin gefur til kynna að styrkur gæti aukist á norðausturlandi er líða fer á daginn. Svæði með háum styrk gæti orðið stærra. Umhverfisstofnun stefnir að því að setja upp mælitæki á Akureyri og Suðurlandi. Taka verður tillit til landfræðilegra aðstæðna á hverjum stað við mat loftgæða.
- Leiðbeiningar:
- Ef fólk finnur fyrir óþægindum er mælt með að halda sig innandyra, loka gluggum, auka kyndingu og slökkva á loftræstingu. Gott er að lofta vel út þegar loftgæði eru góð. Tafla um viðbrögð við loftmengun hefur verið birt á vef Umhverfisstofnunar www.ust.is. Hægt er að fylgjast með mælingum á loftgæðum á síðunni loftgæði.is. Veðurstofan birtir textaspár á vef sínum og viðvaranir eftir því sem aðstæður breytast.
- Tilmæli og leiðbeiningar frá Sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun má finna á heimasíðum stofnananna. ust.is og www.landlaeknir.is
- Veðurfræðingar Veðurstofu munu koma fréttum af brennisteinsgasi á framfæri í heðfbundnum veðurfréttatímum á RUV.
- Umhverfisstofnun kannar möguleika á því að fá fleiri mæla til landsins svo betur megi fylgjast með gosmengn frá eldgosinu.
- Hægt er að senda inn fyrirspurnir til Umhverfisstofnunar vegna loftmengunnar á netfangið gos@ust.is
- Loftgæði á gossvæðinu:
- Mikið gasstreymi er áfram í og kringum eldstöðina. Bráð lífshætta stafar af gasinu og ekki er óhætt að nálgast svæðið án gasmæla og gasgríma. Við gosstöðvarnar má búast við sífelldum staðbundnum breytingum á vindátt, vegna hitauppstreymis, sem gera aðstæður þar mjög hættulegar. Allir vísindamenn á vettvangi hafa gasmæla á sér til þess að tryggja öryggi þeirra við störf.
- SO2 afgösun frá hrauninu er nú talin vera allt að 750kg/sec.
- Þrír möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:
- Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.
- Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annar staðar undir jöklinum.
- Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkuð.
Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.
Frá Veðurstofu Íslands:
Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur fyrir Bárðarbungu.