Eldgosið í Holuhrauni hefur nú staðið yfir í 40 daga

Nú eru 40 dagar frá því eldgos hófst í Holuhrauni. Það var um kl. 4:00 að morgni sunnudagsins 31. ágúst sem eldgosið, sem nú stendur, hófst. Tveimur dögum áður, þann 29. ágúst kl. 00:02, hófst reyndar lítið eldgos á sama stað og það seinna, en það gos var mjög lítið og dó út á örfáum klukkustundum. Talið er að hraunið sem kom upp úr fyrra gosinu hafi verið um 100 þúsund fermetrar. Til samanburðar þá er talið að hraunbreiðan úr síðara gosinu sé nú rúmlega 53 ferkílómetrar.

Eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 hófst 14. apríl og því var lokið 23. maí sama ár. Því má segja að eldgosið í Holuhrauni hafi nú þegar staðið einum degi lengur en gosið í Eyjafjallajökli, en engin merki sáust um eldsumbrot þann 23. maí 2010. Eldgosið í Eyjafjallajökli er talið hafa verið 0,25 rúmkílómetrar af stærð, en þá er miðað við magn gosefna sem komu upp í eldgosinu. Gosið í Holuhrauni er nú þegar einnig orðið stærra en Eyjafjallajökulsgosið á þann mælikvarða. Þann 22. september síðastliðinn kom fram í gögnum frá Jarðvísindastofnun HÍ að rúmmál hraunsins í Holuhrauni væri áætlað hálfur rúmkílómetri. Nú eru liðnir 18 dagar frá þeirri mælingu og því verður mjög fróðlegt að sjá hve mikið rúmmál hraunsins hefur aukist á þeim tíma.

Vísindamenn frá Jarðvísindastofnun, Veðurstofu Íslands og almannavörnum flugu í dag yfir gosstöðvarnar í Holuhrauni. Gögn sem aflað var í þeirri flugferð verður miðlað til almennings svo fljótt sem auðið er.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir af hinu 40 daga gamla eldgosi í Holuhrauni, sem enn virðist í fullu fjöri.

hraun_yfirlitskort_20141007

Holuhraun_BrynjarFriðriksson_Mynd6_20140912

Gosstrókarnir á fyrstu dögum gossins. Mynd Brynjar Friðriksson.